Met á met ofan og tvenna hjá Ferrari

Sebastian Vettel var í þessu að vinna ráspól ungverska kappakstursins í Búdapest og félagi hans Kimi Räikkönen náði öðru sæti á síðustu stundu. Keppnin um pólinn var tvísýn og spennandi.

Í þriðja sæti varð Valtteri Bottas hjá Mercedes en liðsfélaga hans Lewis Hamilton gekk flest á móti og hafnaði hann í fjórða sæti og jafnaði því ekki ráspólamet Michaels Schumacher að þessu sinni.

Vettel og Räikkönen voru í efstu tveimur sætunum eftir fyrstu lotu en síðan tók Hamilton við í annarri lotu og sló brautarmet Vettels frá í morgun. Ferrariþórinn var nú annar og Max Verstappen hjá Red Bull skaust upp í þriðja sætið.

Í  lokalotunni gekk allt upp hjá Ferrari og kemur sér vel fyrir Vettel í titilslagnum að hafa þá Räikkönen og Bottas milli sín og Hamiltons þegar kappaksturinn hefst á morgun. Ók Vettel lokahringinn á nýju meti 1:16,276 mín., Räikkönen á 1:16,444, Bottas á 1:16,530 og Hamilton á 1:16,693 sem vill svo til að er sami tími og hann setti í annarri lotu.

Max Verstappen varð síðan fimmti og liðsfélagi hans Daniel Ricciardo sjötti. Nico Hülkenberg hjá Renault varð sjöundi en hefur keppni aftastur á morgun vegna víta vegna ótímabærra skipta á  gírkassa.  Fernando Alonso og Stoffel Vandoorne hjá McLaren urðu í áttunda og níunda sæti og Carlos Sainz hjá Toro Rosso í því tíunda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert