Vettel setti brautarmet

Sebastian Vettel á lokaæfingunni í Búdapest.
Sebastian Vettel á lokaæfingunni í Búdapest. AFP

Sebastian Vettel hjá Ferrari gerði sér lítið fyrir og sló brautarmetið í Hungaroring er hann ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Búdepest. Liðsfélagi hans Kimi Räikkönen ók næsthraðast og Valtteri Bottas hjá Mercedes átti þriðja besta tímann.

Vettel ók hringinn best á 1:17,017 mínútum en gamla metið á Rubens Barrichello  frá árinu 2004. Räikkönen fór hringinn á 1:17,492 mín. og Bottas á 1:17,914 og má af því sjá að Ferrarifákarnir höfðu talsverða yfirburði á Mercedesbílinn. 

Lewis Hamilton varð aðeins í fimmta sæti á 1:18,434 eða um sekúndu lengur með hringinn en Räikkönen. Fróðlegt verður að sjá hvort þessi munur haldist í tímatökunni á eftir.

Max Verstappen hjá Red Bull komst upp á milli ökumanna Mercedes á 1:18,194 mín. en liðsfélagi hans Daniel Ricciardo varð aðeins áttundi á 1:18,714 mín. hring. Ók hann hraðast á báðum æfingum gærdagsins.

Stoffel Vandoorne hjá McLaren setti sjötta besta tímann, 1:18,638 mín. og liðsfélagi hans Fernando Alonso ók á 1:18, 884 sem dugði til níunda sætis. Nico Hülkenberg á Renault varð sjöundi á 1:18,699 og liðsfélagi hans Jolyon Palmer tíundi á 1:18,956 mín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert