Vill bara semja til eins árs

Sebastian Vettel fer hér á undan liðsfélaga sínum, Kimi Räikkönen …
Sebastian Vettel fer hér á undan liðsfélaga sínum, Kimi Räikkönen í ungverska kappakstrinum. AFP

Lagður hefur verið fyrir Sebastian Vettel nýr samningur til þriggja ára en hann er sagður á því að semja aðeins til eins árs í senn.

Forseti Ferrari, Sergio Marchionne, segir að samningar séu nánast í höfn og megi gera ráð fyrir tilkynningu á ítölsku keppnishelginni í Monza í byrjun september.  Hann segir að Kimi Räikkönen verði sömuleiðis áfram hjá liðinu 2018.

Vettel er sagður vilja stuttan samning til að halda möguleikum opnum á að ráða sig annað 2019 þætti honum styrk Ferrari ógnað.

„Það er rétt að ég hef ekki samið ennþá. Engin ástæða er þó til að hafa áhyggjur af einhverjum pappírum nú, heldur einbeita sér að því að ná góðum árangri í keppni. Mér liggur ekkert á að semja og held hið sama sé að segja um Ferrari. Það eru engin vandamál á ferðinni,“ segir Vettel sjálfur um samningamálin.

Samningur Lewis Hamilton við Mercedes rennur út í árslok 2018 og ekkert er vitað um framtíðaráform hans á þessu stigi. Liðsstjórinn Toto Wolff er þó á því að framlengja samning hans. Einn möguleiki er sá að þeir Vettel hafi sætaskipti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert