Framúrakstur helmingi sjaldnar

Framúrtaka er mun erfiðari í ár en undanfarin ár í …
Framúrtaka er mun erfiðari í ár en undanfarin ár í formúlu-1.

Formúlutíðin í ár er víða rómuð fyrir toppslag Ferrari og Mercedes. Það deyfir þó gleðina að helmingi sjaldnar hefur komið til framúraksturs í keppni það sem af er miðað við fyrri helming keppnistíðarinnar 2016.

Fyrirfram var búist að minna yrði um framúrakstur þar sem breyttir bílar í ár mynda mikla kviku og ólgustreymi lofts frá þeim. Í mótum eins og í Búdapest á dögunum var augljóst að útilokað var fyrir ýmsa ökumenn að komast fram úr bíl sem á undan fór.

Alls var fjöldi framúraksturs í fyrstu ellefu mótunum í fyrra talinn 553 tilvik. Eftir fyrstu ellefu mótin í ár eru tilvikin hins vegar aðeins 244. Flest voru þau í Azerbajsan eða 59. Í rússneska kappakstrinum hins vegar var aðeins um eina framúrtöku að ræða!

„Það er miklu erfiðara að komast fram úr í ár en undanfarnar keppnistíðir þar sem bremsusvæðin eru miklu styttri í ár. Vængpressa bílanna hefur aukist svo mjög og dekkin slitna minna,“ segir Sergio Perez hjá Force India til dæmis um þennan vanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert