Veiða ekki Verstappen

Hvorki Mercedes né Ferrari mun freista þess að veiða Max Verstappen til sín frá Red Bull, að mati liðsstjórans Christian Horner.

Verstappen er samningsbundinn Red Bull út árið 2019 en sögur hafa verið á kreiki þess efnis að Mercedes hafi lengi sýnt honum áhuga. Einnig hefur hann ítrekaður verið sagður á leið til Ferrari.

Mercedes gerði hosur sínar grænar fyrir Verstappen er hann keppti í Evrópuröð formúlu-3 og bauðst til að taka hann upp á arma sína en hann valdi fremur að fara til Red Bull.

Belgísk-hollenska ökumanninum hefur gengið brösuglega í ár vegna endingarskorts keppnisbíls Red Bull. „Hanner óþolinmóður eins og allt ungt fólk. En hann er nógu raunsær til að átta sig á að það er margt gott í pípunum hjá okkur,“ segir liðsstjórinn Christan Horner, spurður hvort Verstappen kynni að vilja faratil annars liðs.

Verstappen er í sjötta sæti í stigakeppni ökumanna og er 50 stigum á eftir liðsfélaga sínum, Daniel Ricciardo. Hefur hann aðeins komist einu sinni á verðlaunapall það sem af er vertíðar, er hann hreppti þriðja sæti í kínverska kappakstrinum í Sjanghæ.
Verstappen sagðist vera að „tapa trúnni“ á bíl Red Bull eftir að bilun í kúplingu felldi hann úr leik í austurríska kappakstrinum. Sömuleiðis sagðst hann hafa áhyggjur yfir því hvort Renault leggi liðinu til öflugri og betri keppnisvél í bíla Red Bull 2018.

Horner játar, að Red Bull þurfi að geta lagt Verstappen í hendur bíl sem keppa má á til sigurs standi því hugur til að framlengja dvöl  Verstappen hjá liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert