Biðja Verstappen afsökunar

Cyril Abiteboul, yfirmaður íþróttadeildar Renault,  hefur beðið Max Verstappen og Red Bull liðið afsökunar á bilun í bílvél belgísk-hollenska ökumannsins í Spa-Francorchamps um helgina.

Abiteboul segir að brugðist verði við biluninni til að koma í veg fyrir að samskonar bilun eigi sér stað.Komið hefur í ljós, að skynjari bilaði með þeim afleiðingum að vélin hrökk í öryggisham og drap á sér. 

Liðsstjóri Red Bull, Christian Horner, sagði eftir kappaksturinn að þjónusta Renault væri ábótavant en þetta var í sjötta sinn á árinu sem Verstappen fellur úr leik vegna bilana í aflrásinni. Á sama tíma hefur gangverkið virkað með öllu eðlilega í hinum bílnum, bíl Daniels Ricciardo sem hafnaði á verðlaunapalli í Spa.

Abiteboul kveðst hryggur yfir biluninni í Spa og auk þess að biðjast forláts sagði hann að tæknimenn Renault myndu vinna hart að því að tjaldabaki að styrkja endingartraust vélanna.

Sjálfur segir Verstappen að bilanirnar verði ekki skráðar á óheppni og segir hann ástandið mjög niðurdrepandi. Vegna væntanlegra vélarskipta í ítalska kappakstrinum um næstu helgi er viðbúið að hann þurfi að taka afturfærslu á rásmarkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert