Ójafnræði olíubrennslunnar

Nýjar reglur um olíubrennslu í vélum keppnisbíla formúlu-1 koma til framkvæmda í Monza um komandi helgi. Mercedesliðið þykir hafa snúið á reglusetjarana með því að mæta með nýjar vélar í Spa um nýliðna helgi en með því er liðið undanþegið reglunum og getur brennt meiri olíu en hin liðin.

Takmarka átti olíubrennsluna avið 0,9 lítra á hverja 100 km í stað 1,2 lítra hingað til. Gaf Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) út tilskipun um breytinguna eftir samráð við keppnisliðin. Var það skilningur þeirra að breyttar vélar með minni olíuneyslu myndu liðin ekki taka í notkun fyrr en í Monza.

Á óvart kom því er Mercedes ákvað að taka nýju vélarnar í notkun móti fyrr, eða í Spa. FIA hefur hins vegar staðfest að með því sé liðið undanþegið strangari reglunni meðan nýju vélarnar verða í notkun.

Liðin sem fá vélar frá Mercedes (Force India og Williams) þurfa hins vegar að uppfylla strangari mörkin þegar þau fá sínar lokavélar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert