Ráspólamet í rigningunni

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að setja nýtt ráspólamet er hann varð hlutskarpastur í tímatökunni í Monza, sem var að ljúka, eða tæplega þremur tímum á eftir áætlun. Rigning varð til þess að henni var frestað í um 2:45 klukkustundir.

Varþetta 69. ráspóllinn sem Hamilton vinnur eða einum fleiri en Michael Schumacher vann á sínum tíma og fjórum fleiri en Ayrton Senna. Í öðru sæti varð Max  Verstappen hjá Red Bull og liðsfélagi hans Daniel Ricciardo þriðji. Þeir færast lengst aftur eftir rásmarkinu vegna víta fyrir uppfærslur í aflrás bílanna sem ekki áttu samkvæmt reglum að verða teknar í notkun þessa helgina.

Nýliðinn Lance Stroll hjá Williams stóð sig frábærlega og varð fjórði sem þýðir að hann hefur keppni við hlið Hamiltons á fremstu rásröð á morgun. Fimmti varð svo franski nýliðinn Esteban Ocon hjá Force India. Sýnir þetta að ökumenn áttu misjafnlega auðvelt - eða erfitt - með að ná að hita dekkin undir bílunum í tímatökunni.

Þá á til dæmis bersýnilega við Ferrarifákana sem klikkuðu á heimavelli sínum. Sebastian Vettel varð aðeins áttundi en Kimi Räikkönen varð einu sæti framar í því sjöunda. Hefur hann keppni næstur á eftir landa sínum Valtteri Bottas hjá Mercedes sem mun eflaust reyna hindra að þeir komist í tæri við Hamilton sem er 14 stigum á eftir Vettel í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Fyrsta tuginn á rásmarkinu fylltu svo Felipe Massa hjá Williams og Stoffel Vandoorne hjá McLaren. 

Vegna afturfærsluvíta færast ökumenn sem urðu í sætum fjögur til tíu upp um tvö sæti hver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert