Metfjöldi áhorfenda í Monza

Met var sett í Monza um helgina er 185.000 áhorfendur borguðu sig inn á ítalska kappaksturinn mótsdagana þrjá. 

Er þetta 32,8% aðsóknaraukning frá í fyrra, 2016, og 15,7% yfir fyrra meti sem var frá árinu 2000.

„Ég þakka alveg sérstaklega þeim öllum sem sátu í stúkunum í úrhellisrigningu á laugardeginum og biðu þess að aðstæður löguðust nógu mikið til að tímatakan gæti farið fram,“ segir viðskiptastjóri formúlu-1, Sean Bratches.

Vegna rigningar dróst það um tæpar þrjár klukkustundir að hefja tímatökuna.

„Þessi auðsýnda ástríða er gríðarleg hvatning til okkar um að leggja enn harðar að okkur til að auka enn frekar á skemmtigildi íþróttarinnar um heim allan,“ bætti Bratches við.

mbl.is