Bottas áfram hjá Mercedes

Valtteri Bottas.
Valtteri Bottas. AFP

Valtteri Bottas verður áfram ökumaður Mercedesliðsins en staðfest hefur verið að samningur hans hafi verið framlengdur út vertíðina 2018.

Bottas gekk til liðs við Mercedes í janúar síðastliðnum og fyllti þar með skarðið sem Nico Rosberg skildi við sig er hann ákvað sem nýkrýndur heimsmeistari ökumanna að hætta keppni.

Hann vann sinn fyrsta ráspól sem liðsmaður Mercedes í Barein og sinn fyrsta mótssigur í rússneska kappakstrinum í Sotsjí. Þessu fylgdi hann svo eftir með ráspól og sigri í austurríska kappakstrinum í Spielberg.

Sem stendur er Bottas í þriðja sæti í keppninni um titil ökumanna í ár en hann er 41 stigi á eftir liðsfélaga sínum Lewis Hamilton sem er efstur að stigum.

mbl.is