Nær ekkert ekið vegna bleytu

Ökumenn hreyfðu vart bíla sína á seinni æfingunni í Suzuka vegna rigningar og rennblautrar brautar.

Aðeins 14 af 20 ökumönnum fóru úr bílskúrum sínum og óku þeir einn til fjóra hringi hver.

Lewis Hamilton á Mercedes setti besta tímann á sínum fjórum hringjum. Esteban Ocon á Force India var 0,8 sekúndur lengur í förum og þriðja besta tímann setti liðsfélagi hans, Sergio Perez, en þeir óku þrjá hringi hvor.

Williamsmennirnir Felipe Massa og Lance Stroll ómökuðu sig einnig, sá fyrrnefndi fór þrjá hringi og Stroll fjóra. Voru þessir fimm þeir einu sem óku hreinan fljúgandi hring. 

Út-  og innhringi óku Kimi Räikkönen á Ferrari, Nico Hülkenberg á Renault, Jolyon Palmer á Renault,  Marcus Ericsson á Sauber, Sebastian Vettel á Ferrari, Fernando Alonso á McLaren, Pascal Wehrlein á Sauber, Carlos Sainz á Toro  Rosso og Stoffel Vandoorne á McLaren.  

Þeir sem létu ógert að setja bíla sína í gang voru Daniel Ricciardo á Red Bull, Romain Grosjean á Haas,Pierre Gasly á Toro Rosso, Kevin Magnussen á Haas, Max Verstappen á Red Bull og Valtteri Bottas á Mercedes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert