Hamilton færist nær titlinum

Stuðningsmenn Lewis Hamilton voru áberandi í stúkum Suzuka.
Stuðningsmenn Lewis Hamilton voru áberandi í stúkum Suzuka. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna japanska kappaksturinn og steig með því risaskref í áttina að heimsmeistaratitli ökumanna þar sem eini keppinautur hans, Sebastian Vettel á Ferrari, féll úr leik vegna laus kertaþráðar.

Vettel fann þegar fyrir vanmætti Ferrarivélarinnar á upphitunarhringnum og strax á fyrsta hring vann Max Verstappen á Red Bull sig fram úr honum. Fylgdu svo fleiri í kjölfarið á næsta hring og þrátt fyrir tilraunir Ferrari til viðgerðar meðan á akstri stóð og meðan sýndaröryggisbíll var í brautinni fékkst ekkert við ráðið. Var Vettel því kallaður inn að bílskúr og hætti akstri eftir þrjá hringi.

Hamilton átti í raun rólegan dag því aðrir komust aldrei í tæri við hann, nema á síðustu tveimur til þremur hringjunum er hann gat ekki beitt bíl sínum um of vegna titrings frá dekkjunum. Dró Verstappen mjög hratt á hann en þó ekki nóg til að leggja til atlögu. Hjálpuðu hægfara bílar  Hamilton líka þar sem hann gat þá brúkað DRS-vænginn til hraðaaukningar. Varð Verstappen að sætta sig við annað sætið.

Með sigrinum og brottfalli Vettels er Hamilton nú með 59 stiga forskot á Ferrariþórinn í keppninni  um titil ökumanna. Er staðan 306:247 milli þeirra og þriðji er Bottas með 234 stig, Ricciardo er með 192, Räikkönen 148 og Verstappen 111.

Í keppni liðanna er Mercedes með 540 stig, Ferrari 395, Red Bull 303 og Force India með 147.

Daniel Ricciardo á Red Bull varð þriðji og er þetta níunda mótið á árinu sem hann stendur á verðlaunapalli. Oftar hefur hann aldrei verið þar á einni og  sömu keppnistíðinni.

Í sætum fjögur til tíu urðu - í þessari röð - Valtteri Bottas á Mercedes, Kimi Räikkönen á Ferrari, Esteban Ocon og Sergei Perez á Force India, Kevin Magnussen og Romain Grosjean á Haasa og Felipe Massa á Williams sem tókst að verjast framúrtökutilraunum Fernando Alonso á McLaren á síðustu tveimur hringjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert