„Of auðvelt“ fyrir Hamilton

Lewis Hamilton fagnar titlinum eftir keppni í Mexíkó.
Lewis Hamilton fagnar titlinum eftir keppni í Mexíkó. AFP

Fernando Alonso segir að Lewis Hamilton hafi haft það „heldur náðugt“ á vertíðinni í ár og heimsmeistaratitilil ökumanna hafi verið honum alltof auðveldur.

Heitir Alonso að veita þessum fyrrverandi liðsfélaga sínum harða keppni á næsta ári þegar Renaultvél verður komin í McLarenbílana í stað Hondavéla.

Hamilton landaði sínum fjórða titli í Mexíkó um liðna helgi en þá háðu þeir Alonso harða keppni um aðeins níunda sætið í sjálfum kappakstrinum. Eftir nokkurra hringja rimmu hafði Hamilton betur í þeirri glímu. „Þetta var góður bardagi en á brattann að sækja þegar maður er ekki með eins góðan bíl,“ sagði Alonso.

„Hann veit hversu öflugur McLarenbíllinn er í beygjum, hann sá það í keppninni. Næsta ár, vonandi, verðum við honum öllu erfiðari. Mercedes vann titil bílsmiða þegar fjögur mót voru eftir og Hamilton þremur mánuðum fyrir vertíðarlok. Þessu getur McLaren-Renault breytt á næsta ári svo það verði þeim erfiðara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert