Vettel öruggur í Sao Paulo

Sebastian Vettel á Ferrari var í þessu að vinna Brasilíukappaksturinn þriðja sinni og er það fimmti mótssigur hans á árinu. Annar varð Vatteri Bottas á Mercedes og þriðji Kimi Räikkönen á Ferrari.

Aldrei var um neina raunverulega keppni að ræða milli fremstu manna, aksturinn var eins og lognsigling fyrir verðlaunapallsmennina.

Lewis Hamilton á Mercedes setti hins vegar rækilega mark sitt á mótið  með því að vinna sig úr tuttugasta og síðasta sæti upp í það fjórða. Ók hann eins og mannýgur griðungur og reyndi allt hvað hann gat til að vinna sig upp á verðlaunapall. Með akstrinum gekk hann hins vegar mjög á dekkin og fékk aldrei komist nógu nærri Räikkönen síðustu fimm hringina til að geta reynt að dýfa sér framhjá.

Má segja, að Hamilton hafi notið góðs af því að  öryggisbíll var kallaður út í brautina vegna árekstra á fyrsta hring. 

Í sætum fimm og sex urðu Red Bull félagarnir Max Verstappen og Daniel Ricciardo en sá síðarnefndi hóf keppni af 15. rásstað vegna vélarskipta. 

Skemmtileg rimma var um sjöunda sætið nær allan kappaksturinn milli heimamannsins FelipeMassa á Williams, Fernando Alonso á McLaren og Sergio Perez á Force India. Varð þetta röð þeirra á endamarki en yfir það fóru þeir nær samhíða. Framan af voru þeir framar en urðu að sætta sig við framgang Hamiltons og Ricciardo.

Síðasta stigasætið vann svo Nico Hülkenberg á Renault og næstur honum varð

liðsfélagi hans Carlos Sainz.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert