Vildu leggja McLaren til vélar

McLarenbíll Fernando Alonso verður búinn Renaultvél næstu þrjú árin.
McLarenbíll Fernando Alonso verður búinn Renaultvél næstu þrjú árin. AFP

Toto Wolff segir að Mercedes hafi viljað leggja McLaren til keppnisvélar 2018 en samningaviðræður  hafi dregist um of á langinn til að það hafi getað orðið að veruleika.

Þegar ljóst varð snemma að Honda hafði mistekist að smíða samkeppnisfæra vél fyrir nýliðna keppnistíð hóf McLaren að leita annarra kosta fyrir 2018.

Einn af eigendum McLaren leitaði á náðir Daimler-stjórans Dieter Zetsche og skírskotaði til 25 ára samstarfs McLaren og Mercedes á árunum 1995 til 2014. Þegar hins vegar kom að raunverulegum samningatilraunum runnu þær út í sandinn.
Wolff segir að  Mercedes hafi verið áhugasamt um að semja en vegna þess hversu viðræður drógust á langinn hafi ekki verið nægur tími til að byggja upp aðstöðu í vélsmiðju liðsins til að geta bætt fjórða vélarviðskiptaliðinu í hóp þeirra sem fengu vélar frá Mercedes.
„Við vildum láta McLaren vélar í té, vandinn er hins vegar sá að viðræður drógust um of og við ekki með framleiðsluafköst til að láta verða af því,“ segir Wolff við sjónvarpsstöðina ESPN. „Tíminn hljóp frá mönnum.“

McLaren samdi á endanum við franska bílsmiðinn Renault um keppnisvél næstu þrjú árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert