Gera allt rangt

Liberty, nýtt eigendafélag formúlu-1, gerir allt vitlaust, segir fyrrverandi alráður íþróttarinnar, Bernie Ecclestone. 

Tilefnið er meðal annars sú ákvörðun að hætta að stilla upp léttklæddum konum meðal annars á rásmarki móta. Þar hafa þær tekið sér stöðu við hvern og einn keppnisbílinn og haldið á skilti með nafni ökumanns viðkomandi bíls.

Ecclestone, sem er 87 ára, segir að rásmarksrýjurnar hafi verið partur af skemmtaninni sem formúla-1 hafði upp á að bjóða. Var hann mjög ósáttur við að hætt yrði að tefla þeim fram. Hann sagðist ekki geta séð neitt ósiðsamlegt við að myndarlegar ungar konur héldu á spjaldi með nafni ökumanns við bíl hans á rásmarkinu.

En Ecclestone virðist óánægður með arftaka sína því í blaðinu Sonntagsblick í Sviss segir hann: „Til þessa hef ég ekki séð neitt af viti frá þeim. Þeir virðast gera nánast allt ranglega.“ Ecclestone segir að svo virðist sem ætlunin sé að afmá arfleifð hans úr formúlu-1 eins og hún leggur sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert