Haas sýnir bílinn fyrst liða

Haas-liðið birti í gærkvöldi myndir af keppnisbíl sinn fyrir komandi formúlumót. Hefur hann fengið tegundarnafnið VF-18 og segir í tilkynningu að um sé að ræða áframþróun VF-17 bílsins frá í fyrra.

Haas var í áttunda sæti liðanna í fyrra með 47 stig eða 18 stigum meira en á fyrstu keppnistíð liðsins í formúlu-1, 2016.

Stofnandinn Gene Haas segir að mestu breytingarnar frá fyrra ári hafi verið að laga svonefnda hjálmhlíf að bílnum þannig að loftstraumurinn um bílinn versni ekki og vængpressa minki ekki. Í megin atriðum hafi við hönnun hans verið reynt að útrýma veikum blettum í yfirbyggingu og undirvagni og styrkleikar efldir.

Þannig væri búið að snurfusa bílinn verulega og væntir Haas að hann hafi meira í toppliðin að gera í ár en undanfarin  tvö.

Vegna hjálmhlífarinnar hefur lágmarksþyngd bílsins aukist og þyngdarpunktur hans hefur hækkað frá jörðu vegna staðsetningar hlífarinnar. Það er vandi sem er sameiginlegur öllum liðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert