Forðuðust léttu leiðina

McLarenstjórinn Eric Boullier segir að liðið hafi forðast „auðveldu“ leiðina er það hófst handa við hönnun og þróun 2018-bílsins, MCL33, sem sviptur var hulum í dag.

Eftir þriggja ára misheppnað vélarsamstarf við Honda og vangetu á keppnisbrautinni ákvað McLaren að slíta því samstarfi og ganga frekar í smiðju franska bílsmiðsins Renault eftir keppnisvélum.

Sagði Bouiller er hann kynnti bílinn að verk- og öðrum tæknideildum McLaren bæri að hrósa sérstaklega en þeim hefði tekist að laga Renaultvélina að bílnum þrátt fyrir takmarkaðan fyrirvara.

„Segja má að liðið allt sé stolt af þessum bíl,“ sagði hinn franski stjóri enska liðsins. „Þrátt fyrir tímaskort styttum við okkur aldrei leið og leituðum ekki að flóttaleiðum í því efni. Niðurstaðan er snotur og vel útfærður bíll.“

Að sögn Bouiller bindur McLarenliðið miklar vonir við MCL33-bílinn og að hann nái að rífa liðið upp úr þeirri lægð sem það var í undanfarin þrjú ár. Þótt hann vænti þess að McLaren verði samkeppnisfært á ný í fremstu röð segir hann liðsmenn auðmjúka gagnvart þeirri miklu áskorun sem þeir hafa staðið  frammi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert