Formúlubílar með „geislabaug“

Hjálmhlífin á Ferraribílnum.
Hjálmhlífin á Ferraribílnum.

Aðeins eru fimm dagar til þess að ný keppnistíð hefst í formúlu-1. Óvenjuleg viðbót á bílunum birtist er liðin sviptu þá hulum nýverið. Þar er um að ræða hjálmhlíf til að verja ökumenn við fljúgandi braki og í veltu. Gárungarnir tala um „geislabaug“.

Hjálmhlífin hefur mælst misjafnlega fyrir meðal ökumanna sem hún á að vernda. Hafa nokkrir fundið henni það til foráttu að seinlegra væri að smeygja sér niður í stjórnklefa bílsins. Heimsmeistarinnn Lewis Hamilton sagði lýti að henni og hún væri óþörf. Umræðunni lauk hins vegar þegar annar fyrrverandi heimsmeistari, Fernando Alonso, sagði að það ætti ekki að þurfa ræða hlífina neitt, svo sjálfsögð vörn væri í henni. Þekkir Alonso þungar byltur af eigin raun sem kostað hafa hann fjarveru úr keppni oftar en einu sinni, meðal annars vegna höfuðhögga.

Hjálmhlífin á Mercedesbílnum.
Hjálmhlífin á Mercedesbílnum.


Títan- og koltrefjalykkjan þykir ef til vill ekki falleg en hún jafngildir byltingu í bílhönnun í formúlu-1. Ótti um að hún skerti útsýni og truflaði ökumann hefur horfið eftir reynsluakstur í Barcelona síðustu tvær vikurnar. Niðurstaða ökumanna er að þegar einbeitingin við aksturinn taki yfirhöndina sé bókstaflega eins og þeir verði ekki varir við hlífina.

Miklar framfarir hafa átt sér stað í öryggismálum formúlunnar en eftir stóð möguleikinn að fljúgandi hlutir afvöldum áreksturs, svo sem dekk, gætu lent á hjálmi ökumanna og skaðað þá. Slíkt varð Henry Surte3es að bana í formúlu-2 árið 2009 og Justin Wilson í IndyCar-kappakstrinum 2015. Þá er í fersku minni fljúgandi felguró af öðrum bíl en hans sem hafnaði á höfði Felipe Massa í ungverska formúlu-1 kappakstrinum 2009. Missti hann meðvitund og lengi var óttast um sjón hans.

Hjálmhlífin á Renaultbílnum.
Hjálmhlífin á Renaultbílnum.


Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hefur um árabil rannsakað aðferðir til að vernda ökumenn og átt í samstarfi um það efni við keppnisliðin. Til álita kom glerhlíf sem minnti á hlíf stjórnklefa orrustuflugvéla. Henni var ýtt til hliðar vegna efasemda um að ökumenn kæmust úr bílnum eftir árekstur. Tregða gegn höfuðhlífinni hefur þótt skiljanleg með tilliti til þess að stjórnklefar formúlu-1 bíla hafa alla tíð verið opnir.

Mercedes setti fram tillögu um hina endanlegu hlíf árið 2015 sem málamiðlun. Hún myndi kasta af sér fljúgandi hlutum og ekki breyta útliti bílanna neitt verulega. Grannur stólpi beint fyrir framan ökumann styður lykkjuna sem verpist um stjórnklefann ögn hærra en hjálmur ökumannana. Hún verður að þola 12 tonna högg við prófanir í tilraunastofu sem hefur haft í för með sér að styrkja hefur þurft bílana aukalega til að standast högg af þeim þunga. Sjálf er hlífin 30 kíló þótt smíðuð sé úr léttu efni. sem er umtalsverð viðbót í íþrótt þar sem keppikeflið er að losna við bílkílóin.

Keppendur þriggja toppliðanna í fyrra eru þeir sömu í ár. …
Keppendur þriggja toppliðanna í fyrra eru þeir sömu í ár. Stóra spurningin er hvort einhver eða einhverjir komist upp á milli þeirra. Í efri röð eru (f.v.) Hamilton, Vettel og Bottas. Í neðri röð t.v. Räikkönen, Ricciardo og Verstappen.


Um keppnisbílana má að öðru leyti segja að sum liðanna hafa horfið aftur til fortíðar í litavali þeirra. Þannig er 2018 bíll McLaren svipaður á fyrstu árum liðsins snemma á áttunda áratugnum, papayarauður og með bláum flötum. Ferrarifákurinn hefur hrist af sér hvíta fleti og hvítar skreytingar hér og þar um skrokkinn frá undanförnum árum – og horfið aftur til hins klassíska og hefðbundna skarlatsrauða litar. agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert