Skýtur niður danskan kappakstur

Þannig var ætlunin að leggja brautina í miðborg Kaupmannahafnar.
Þannig var ætlunin að leggja brautina í miðborg Kaupmannahafnar.

Ekkert verður úr  áformum um keppni í formúlu-1 í dönsku höfuðborginni, Kaupmannahöfn.

Fyrr á árinu lögðu æðstu menn formúlunnar leið sína til borgarinnar við sundin  og funduðu með aðilum sem kynnt höfðu áform um að stofna til keppni þar í borg. Lýsti aðalstjórnandi formúlunnar, Chase Carey, bjartsýni á möguleika Kaupmannahafnar til mótshalds.

Aðstoðarborgarstjóranum Ninnu Hedeager Olsen finnst lítið til þessa koma, en hún fer með mál  umhverfis- og tæknideilda borgarinnar í borgarstjórninni.
 
„Framkvæmd móts eins og formúlu-1 er gríðarlega umfangsmikil og kröfurnar miklar að það er algjörlega óraunhæft að keppt verði í Kaupmannahöfn árið 2020,“ segir hún í blaðinu Politiken.

Hún bætir við að vegna undirbúnings keppni og frágangs að henni lokinni hafi verið reiknað út, að mótshaldið hefði í för með sér níu vikna truflun í miðborg Kaupmannahafnar. „Það er vitaskuld algjörlega óaðgengilegt.ׅ“

mbl.is