Bottas færist afturábak

Valtteri Bottas á ferð í tímatökunni í Melbourne.
Valtteri Bottas á ferð í tímatökunni í Melbourne. AFP

Valtteri Bottas  hjá Mercedes þarf að færast aftur um fimm sæti á rásmarkinuí Melbourne á morgun  þar sem skipt var um gírkassa í bíl hans eftir að hann flaug út úr brautinni og hafnaði á öryggisvegg í tímatökunni.

Bottas varð tíundi og síðastur í tímatökunni en vegna óhappsins gat hann enga tímatilraun gert.  Vegna refsingarinnar hefur hann keppni af 15. rásstað.

Bíll Bottas laskaðist umtalsvert. Mercedesstjórinn Toto Wolff sást í sjónvarpsmyndavélum berja í borðið og blóta er hann horfði á skjólstæðing sinn klessa. Hann segist óttast að skellurinn gæti haft neikvæð áhrif á Bottas, í þá veru að hann myndi glata einhverju af sjálfstrausti.

mbl.is