Glottið á sínum stað

Ekki tókst heimsmeistaranum Lewis Hamilton að kveða Sebastian Vettel í kútinn því sá síðarnefndi var í þessu að vinna sætan og framúrskarandi sigur í Ástralíukappakstrinum í Melbourne.

Hamilton sagði eftir tímatökuna í gær að takmark sitt væri að afmá sjálfsöryggisbros Vettels, en aðstæður sköpuðust þannig í kappakstrinum að Vettel komst úr þriðja sæti í það fyrsta eftir að öryggisbíll var sendur út í brautina um miðbik kappakstursins. Með sigri hans snerist dæmið við og var það Vettel sem breytti brosi Hamiltons í fýlusvip.

Hamilton hélt forystunni inn að og í gegnum fyrstu beygju þrátt fyrir harða atlögu Kimi Räikkönen. Um leið og öryggisbíllinn kom út skutust þeir Räikkönen inn að bílskúrum til dekkjaskipta en við það færðist Vettel úr þriðja sæti í fyrsta. Beið hann eina sex hringi áður en hann skaust sjálfur inn og fékk nýja barða undir bíl sinn. Kom hann út úr stoppinu rétt fyrir fram nefið á Mercedesbílnum.   

Hamilton vissi ekki hvaðan á sig veðrið stóð og virist þrumulostinn og spurði hver ástæðan fyrir hinni nýju stöðu væri; hvort hann hefði gert mistök eða einhverjir aðrir. En er hann hafpi jafnað sig hóf hann grimma sókn og reyndi hvað hann gat að komast í færi til að freista framúraksturs og hrifsa forystuna til sín aftur. Gekk hann þó um of á dekkin í þessum tilraunum og varð að játa sig sigraðan þegar tveir til þrír hringir voru eftir.

Þriðji í mark varð Kimi Räikkönen og byrjar Ferrari keppnistíðina mun öflugar en Mercedes með tvo menn á palli. Liðsfélagi Hamiltons, Valtteri Bottas, varð aðeins áttundi eftir að hafa byrjað  keppni fimmtándi.

Heimamaðurinn Daniel Ricciardo varð fjórði eftir að hafa siglt í kjölsogi Räikkönen hálfan kappaksturinn. Liðsfélagi hans hjá Red Bull, Max Verstappen varð sjötti í mark eftir heldur misheppnaða keppni.

Fernando Alonso hjá McLaren varð að ósk sinni en hann sagðist eftir tímatökuna í gær ætla sér upp í fimmta sætið í kappakstrinum. Stóð hann við þau orð sín en það er betri árangur en alla keppnistíðina í fyrra er besta sæti hans í keppni var hið sjötta. Liðsfélagi hans Stoffel Vandoorne varð níundi. 

Báðir bílar Renault komu í mark í stigasæti, Nico Hülkenberg varð sjöundi og Carlos Sainz tíundi.

Haas bílar báðir úr leik

Einn af hápunktum tímatökunnar i gær var árangur Haasliðsins sem tryggði sér sjötta og sjöunda rásstað. Vegna refsingar Ricciardo hófu þeir keppni í fimmta og sjötta sæti, en um miðbik kappakstursins féllu báðir úr leik með litlu sem engu millibili. Vélræn bilun stoppaði Kevin Magnussen og illa fest hjól Romain Grosjean.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert