Markmið McLaren að sigrast á Red Bull

Fernando Alonso kveðst stoltur af liðsmönnum sínum hjá McLaren fyrir þær miklu framfarir sem hafa átt sér stað hjá liðinu frá í fyrra. Hann lauk keppni í Melbourne í fimmta sæti, eða einu sæti ofar í keppni en hann náði best allt árið í fyrra.

Alonso hóf keppni í ellefta sæti en naut síðan brottfalls beggja bíla Haasliðsins og síðan sýndaröryggisbíls sem gerði honum kleift að vinna sig fram úr Max Verstappen hjá Red Bull.

Liðsfélaginn Stoffel Vandoorne kláraði einnig  keppni í stigasæti og er það í fyrsta sinn frá ungverska kappakstrinum í Búdapest í fyrra að báðir bílar McLaren koma í mark meðal tíu fremstu.

„Þetta var fínn kappakstur, ekki síst þegar haft er í huga hvar við vorum á rásmarkinu. Síðustu tvö árin hafa verið okkur erfið og veturinn var einnnig erfiður. Við skiptum mjög seint um vélarframleiðanda og liðið varð að einhenda sér af öllum krafti í að endurhanna hluta afturenda bílsins. Því er það flott að koma hingað og vinna stig á báðum bílum og koma öðrum þeirra með fimm fremstu. 

Við getum verið stoltir af þessu en það á meira eftir að  koma frá McLaren. Við nýttum ekki möguleika bílsins til fulls né kreistum það afl úr honum sem í honum býr. Þetta er bara fyrsti kappaksturinn með Renault og uppfærslur koma til notkunar í nokkrum næstu mótum. Nú getum við horft fram á við og augljóslega er Red Bull næsta skotmark okkar. Við eigum bara eftir að verða betri og betri,“ segir Alonso. 

Hann játar að heppni hafi verið með McLaren. „Við skulum segja að ég hafi færst upp um fjögur sæti vegna hagstæðra atvika í brautinni. En við gerðum engin mistök og og högnuðumst á öllum kringumstæðum. Fullkomið verk af hendi liðsins.“

mbl.is