Hraðasta stoppið og hraðasti hringur

Daniel Ricciardoo hjá Red Bull gerði sér lítið fyrir og átti bæði stysta dekkjastoppið og hraðasta hring kappakstursins í Melbourne.

Liðsstjórinn Christian Horner, sem einnig er Ástrali eins og Ricciardo, hrósaði sínum manni í hástert og sagði frammistöðu hans mikla hvatningu.

Ricciardo vann sig úr áttunda sæti á rásmarkinu í það fjórða á heimavelli sínum og háði lengi keppni um þriðja sætið við Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Ekki voru eins góðar fréttir úr hinum helmingi bílskúrs Red Bull því  Max Verstappen missti Kevin Magnussen hjá Haas fram úr sér í fyrstu beygju eftir ræsingu. Snarsnerist hann í annarrai beygju nokkrum hringjum seinna og kvartaði um mikinn vélarhita lengstum. Missti hann svo Fernando Alonso á McLaren fram úr sér þegar 20 hringir voru eftir og þótt yfirleitt munaði ekki nema sekúndu á þeim komst Verstappen aldrei í færi til að reyna framúrakstur. Lauk hann  keppni í sjötta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert