Bílarnir of breiðir til framúraksturs

Daniel Ricciardo í bíl sínum á keppnishelginni í Melbourne.
Daniel Ricciardo í bíl sínum á keppnishelginni í Melbourne. AFP

Daniel Ricciardo hjá Red Bull er á því að keppnisbílar formúlu-1 séu of breiðir til framúraksturs. Það skýri að hluta skort á framúrakstri í mótum.

Dregið hefur úr framúrakstri í formúlunni eftir tilkomu breiðari og vængpressumeiri bíla í ársbyrjun 2017. Var til að mynda áberandi skortur á raunverulegum framúrtökutilraunum í fyrsta móti ársins, í Melbourne.

Þetta hafa menn viljað skrifa á straumfræði bílanna og áhrif hennar á bíl sem á eftir kemur. Ricciardo segir stærð bílanna einnig valda þessu. „Með breiðari dekkjum og breiðari skrokk þurfa bílarnir meira pláss á brautinni en áður. Það er erfiðleikum bundið að finna óraskað loft. Þetta er að komast á það stig, að það mun bitna mjög á  keppninni í einstökum mótum. Mjórri bílar voru frábærir, það var alltaf leið til að komast fram úr, eins og í keppni á mótorhjólum.  Þau eru hálfri mínútu lengur með hringinn. Brautartíminn skiptir ekki máli, heldur þurfum við á keppnisgetu að halda, það skapar skemmtanina sem áhorfendur vilja fá að sjá,“ segir Ricciardo við tímaritið Motorsport.com.

Hann segir 2014-bílinn sérstaklega minnistæðan en mun minni vængpressa var á bílunum 2009 til 2016. „Þeir voru hægari miðað við núverandi bíla en fyrir áhorfandann var munurinn lítill sem enginn. Í keppni gastu fylgt öðrum bílum eftir og tekið fram úr. Hvað framúrakstur áhrærir var keppnistíðin 2014 fín.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert