Bumbult af eitruðum banana

Ökumaðurinn Carlos Sainz hjá Renault hefur upplýst að „eitraður“ banani sem hann borðaði rétt fyrir kappaksturinn í Melbourne hafi aukið á óþægindi sín.

Hafi hann ekki getað einbeitt  kröftum sínum alfarið að kappakstrinum vegna óþæginda í iðrum sér. Hafi honum orðið verulega bumbult af bananum og verið nokkrum sinnum við að selja upp. En þrátt fyrir vanrdæðin tókst honum að verjast sókn Sergio Perez hjá Force India og hélt hann honum fyrir aftan sig alla leið í mark.

Sainz segist hafa snætt bananann hálfri klukkustundu fyrir ræsingu í Melbourne, en hann hafi verið fremur bragðvondur. Ekki hafi bætt úr skák, að loka á drykkjarflöskunni hafi staðið  á sér opin og vatn því streymt inn í hjálminn. Hafi hann því orðið að drekka meira en góðu hófi gegndi og allt þetta hafi valdið iðraverkjum.

„Ég varð að drekka og drekka því annars hefði vatn safnast upp í hjálminum og truflað míkrófón talstöðvarinnar. Fjarskiptin við stjórnborðið hefðu rofnað,“ sagði Sainz.

mbl.is