Räikkönen fljótastur

Kimi Räikkönen á Ferrari ók hraðast á seinni æfingunni í Barein í dag. Og það þrátt fyrir  að hann varð að leggja bílnum við brautarkant og hætta akstri þegar 14 mínútur voru eftir vegna illa festrar felgu.

Eftirlitsdómarar kappakstursins sektuðu Ferrari um 5.000 dollara fyrir að hleypa Räikkönen á óöruggum bíl út í brautina. Er refsingin í takt við 10.000 dollara sekt Haasliðsins sem mistókst að festa vinstra afturdekk undir bílum msínum báðum í Melbourne.

Besti hringur Räikkönen (1:29,817) var mun hraðari en topptíminn á fyrri æfingunni, en hann setti Daniel Ricciardo hjá Red Bull sem átti aðeins sjötta besta hringinn á seinni æfingunni.

Sebastian Vettel, liðsfélagi Räikkönens hjá Ferrari, var næstfljótastur (1:29,828). Skildu aðeins 11 þúsundustu úr sekúndu þá félagana að.

Rúmlega hálfri sekúndu á eftir Ferrarifákunum urðu ökumenn Mercedes, Valtteri Bottast í þriðja sæti (1:30,380) og Lewis Hamilton í því fjórða (1:30,472).

Í sætum fimm til tíu á lista yfir hröðustu hringi urðu - í þessari röð - Max Verstappen og Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Nico Hülkenberg á Renault, Pierre Gasly á Toro Rosso og loks  Fernando Alonso og Stoffel Vandoorne á McLaren.

mbl.is