Talinn fótbrotinn

Liðsmaður Ferrari var fluttur á sjúkrahúss eftir slys við dekkjaskipti í kappakstrinum í dag, en talið var að hann hafi fótbrotnað.

Vann hann við að skipta um vinstra afturhjól er Kimi Räikkönen var gefið merki um að taka af stað. Þykja það ótrúleg mistök af hálfu Ferrari sem talið er að megi búast við þungri sekt fyrir að hleypa bílnum af stað meðan ekki hafði verið gengið tryggilega frá dekkjunum.

Var Ferrari sektað um 5.000 dollara fyrir slík mistök á æfingum í gær. Räikkönen var í sínu öðru dekkjastoppi eftir 36 hringi af 57 er slysið varð. Ók hann liðsmanninn um koll. 

Stöðvaði Räikkönen bíl sinn eftir nokkra metra  og hætti keppni. Í gremju sinni grýtti hann stýrishjólinu niður í stjórnklefann er hann steig upp úr honum. Á leið í bílskúr sinn var hann enn í reiðiham því þar greip hann vatnsflösku og fleygði henni inn í skúrinn. 

Räikkönen staðfestir að honum hafi verið gefið merki um að halda áfram. „Ég tek af stað þegar græna ljósið kviknar. Ég sé ekki hvað á sér stað aftanvert á bílnum  og því miður meiddist maðurinn. En mitt hlutverk er að taka af stað þegar ljósið kemur,“ sagði Räikkönen eftir keppni.

Vegna slyssins fagnaði Ferrari sigri Sebastians Vettel í kappakstrinum afar hóflega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert