Ferrari fær stórsekt

Ferrariliðið hefur verið sektað um 50.000 evrur eða sem svarar rúmlega sex milljónum króna fyrir að hleypa Kimi Räikkönen af stað áður en búið var að skipta um öll dekkin fjögur á bíl hans í í kappakstrinum í Barein.

Vélvirkinn Francesco Cigarini var umsjónarmaður skipta á vinstra afturdekki. Varð hann fyrir bílnum er Räikkönen var ranglega hleypt af stað og tvíbrotnaði á fæti. Var hann fluttur í sjúkrahús og er á batavegi eftir skurðaðgerð.

Räikkönen var á þessum tíma í þriðja sæti en stöðvaði bíl sinn á útleið frá bílskúrnum og hætti keppni. Liðsfélagi hans Sebastian Vettel fór með sigur af hólmi í kappakstrinum. 

Dómarar kappakstursins sektuð Ferrari um 5.000 evrur á föstudag vegna illa festrar felgu undir bíl Räikkönen. Niðurstaða þeirra í kvöld er að gera Ferrari tíu sinnum hærri sekt fyrir að hleypa bílnum af stað „þann veg að það stofnaði starfsmönnum liðsins í hættu og olli meiðslum“.

Räikkönen hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir framkomu sína og viðbrögð rétt eftir að honum var gert að stöðva bíl sinn og hætta keppni. Fremur en að leita eftir hinum slasaða aðstoðarmanni sínum strunsaði hann í uppnámi yfir að verða hætta keppni framhjá bílskúrnum.„Við kláruðum ekki keppni sem er ekki gott en gerist stundum,“ sagði Räikkönen.

Fyrir það hefur hann sætt orrahríð athugasemda á samfélagsmiðlum. Kjarni þeirra ummæla er að eigin hagsmunir hafi verið honum ofar í huga en slasaður dekkjamaður. Litlu seinna kvaðst hann ekki vita um ástand Cigarini og vildi ekki tjá sig um slysið.

Francesco Cigarini hefur séð um að setja nýtt vinstra afturdekk undir keppnisbíla  Ferrari, en hann stóð á sínum stað fyrir framan dekkið sem skyldi af koma. Það vildi ekki losna og var enn áfast þegar Räikkönen fékk merki um að taka af stað. Fékk hann afturhjólið á vinstri fótlegg sinn og féll slasaður til jarðar. Liðsmenn komu honum strax til hjálpar og læknasveit en hann var fluttur með þyrlu á sjúkrahús þar sem gert var að meiðslum hans.

Räikkönen sagði er mál voru tekin að skýrast: „Það sem kom fyrir okkar mann Francesco í dekkjastoppinu er afar leitt. Ég finn til með honum og vona hann nái sér af þessu fljótt. Það er alltaf ömurlegt þegar einhver slasast, en ég er sannfærður um að hann er nú í höndum á  fyrsta flokks hjúkrunarfólki. Ég óska honum skjóts bata“.


 

mbl.is