Hamilton fljótastur í Kína

Lewis Hamilton á Mercedes ók allra manna hraðast á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Sjanghæ í Kína. Var hann 0,4 sekúndum fljótari með hringinn en Kimi Räikkönen á Ferrari og 0,5 á undan liðsfélaga sínum Valtteri Bottas.

Til þess er tekið að Hamilton náði besta tíma æfingarinnar þrátt fyrir að vera á harðari dekkjum en aðrir. 

Í fjórða og fimmta sæti á lista yfir hröðustu hringi urðu Daniel Ricciardo og Max Verstappen hjá Red Bull. Voru þeir 0,1 og 0,2 sekúndum á eftir Bottas. Sebastian Vettel á Ferrari átti svo  sjötta besta hringinn, en var tæplega 0,9 sekúndum lengur með hann en Hamilton sinn.

Í sætum sjö til tíu urðu Kevin Magnussen á Haas, Carlos Sainz á Renault, Romain Grosjean á Haas og Nico Hülkenberg á Renault. Fernando Alonso hjá McLaren setti aðeins tólfta besta tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert