Agndofa yfir styrk Ferrarifákanna

Grín á góðri stundu. Toto Wolff í bílskúr Mercedes.
Grín á góðri stundu. Toto Wolff í bílskúr Mercedes. AFP

Mercedesstjórinn Toto Wolff segist undrandi og eiginlega agndofa yfir hraða Ferraribílanna í kappakstrinum í Kína. Væri það tilefni íhugunar í herbúðum liðs hans.

Í tímatökunni var Mercedesbíllinn hálfri sekúndu lengur í förum en sá frá Ferrari. Fyrir bragðið varð tímatakan að sérslag ökumanna Ferrari, Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen, um ráspólinn.

Valtteri Bottas bætti sig ekkert í lokatilrauninni og Lewis Hamilton hætti í miðri tilraun vegna mistaka og ók heim í bílskúr. Hófu ökumenn Mercedes því kappaksturinn í þriðja og fjórða sæti, en ökumenn Ferrari hófu annað mótið í röð af fremstu rásröð.

Sagði Wolff að Mercedesmenn hafi verið á hælunum og aldrei búist við að Ferrariliðið væri svo öflugt í Sjanghæ. „Þeir voru öflugir öllum stundum. Þetta þarfnast skoðunar af okkar hálfu,“ sagði hann við breska sjónvarpið Sky. Bætti hann við að líklegast leyndist vandamál Mercedes í nýtingu dekkjanna.

mbl.is