Ricciardo fremstur

Daniel Ricciardo á ferð í Bakú í dag.
Daniel Ricciardo á ferð í Bakú í dag. AFP

Gott flug er á Daniel Ricciardo á Red Bull því eftir að setja næstbesta tíma á fyrri æfingu dagsins í Bakú settist hann í efsta sæti  lista yfir hröðustu hringi á seinni æfingunni.

Ricciardo var 69 þúsundustu úr sekúndu á undan Kimi Räikkönen sem átti næst besta hring dagsins. Max Verstappen á Red Bull átti svo þriðja besta hringinn og hafði greinilega jafnað sig af árekstri við öryggisvegg á fyrri æfingunni.

Verstappen gat þó ekki klárað seinni æfinguna sem hann vildi því hann haltraði heim í bílskúr vegna ótilgreindrar tæknibilunar.

Valtteri Bottas á Mercedes átti fjórða besta tímann en hann var í toppsætinu á fyrri æfingunni. Liðsfélagi hans Lewis Hamilton varð fimmti á lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar.

Í sætum sex til tíu urðu - í þessari röð - Fernando Alonso á McLaren, Esteban Ocon á Force India, Carlos Sainz á Renault, Kevin Magnussen á Haas og Nico Hülkenberg á Renault.

Sebastian Vettel á Ferrari átti aðeins ellefta besta tímann og var hálfri annarri sekúndu lengur í förum en liðsfélaginn Räikkönen.

mbl.is