Vettel fram úr felum

Sebastian Vettel á Ferrari ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Bakú en á lokamínútunum fór Rússinn Sergej Sírotkín á Williams of hratt inn í beygju og klessti á öryggisvegg.

Segja má að akstur Vettels staðfesti að hann hafi verið í taktískum feluleik á æfingum gærdagsins sem hann kláraði í 10. og 11. sæti. Ók hann mun hraðar í dag en tókst þó ekki að bæta besta dagstímann frá í gær en hann átti liðsfélagi hans Kimi Räikkönen sem varð þriðji á lokaæfingunni.

Yfirleitt tókst ökumönnum ekki í dag að bæta bílhraðann frá í gær og það þrátt fyrir að vera með langmýkstu dekkin undir lengst af æfingunni. 

Lewis Hamilton fór hægt af stað en sótti sig svo jafn og þétt á seinni hálftímanum og komst upp í annað sæti, en var tæplega 0,4 sekúndum lengur í förum en Vettel.  Aðeins 41 þúsundustu úr sekúndu munaði svo á Hamilton og Räikkönen. Max Verstappen á Red Bull var síðan aðeins 21 þúsundasta á eftir Räikkönen og Valtteri Bottas 50 þúsundustu á eftir Max.

Í sætum sex til tíu urðu - í þessari röð - Sergio Peres á Force India , Kevin Magnussen á Haas, Lance Stroll á Williams, Esteban Ocon á Force India og Sergej Sírotkín á Williams. 

mbl.is