Heppnin með Hamilton

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna kappaksturinn í Bakú í Azerbajshan og var það heppnissigur, eins og vélfræðingur hans sagði við hann í talstöðina á innhring. Annar varð Kimi Räikkönen á Ferrari og þriðji Sergio Perez á Force India. Kappaksturinn einkenndist af óhöppum, árekstrum og alla vega óhöppum.

Sebastian Vettel á Ferrari hafði drjúga forystu fram að dekkjastoppum en missti af forystunni til Valtteri Bottas á Mercedes þegar öryggisbíll var kvaddur öðru sinni út í brautina. Aðeins voru fimm hringir eftir er hann fór úr brautinni og freistaði Vettel þess að ná forystunni af Bottast í fyrstu beygjunum á næsta hring. Tók hann of mikla áhættu, læsti dekkjunum á bremsusvæðinu og féll niður í fjórða sæti og í því kom hann í mark, eftir að Sergio Perez á Force India vann sig fram úr honum.

Á næsta hring féll svo Bottas úr leik er hægra afturdekk splundraðist eftir að hann ók yfir koltrefjaflygsur í brautinni.

Hamilton var lengst af dagsins í þriðja sæti og var ekki saupsáttur við hlutskipti sitt á meðan, fann bílnum eitt og annað til foráttu. Smám saman lagaðist það og greip hann því gæsina þegar hann vann sig fram úr Vettel í endurræsingunni og hlaut svo forystuna í arf frá Bottas. 

Þótt ótrúlega kunni það að hljóma þá var þetta í fyrsta sinn í hálft ár, eða frá í bandaríska kappakstrinum í Austin í Texas sl. október, sem Hamilton fagnar sigri í kappakstri.

Nóg að ræða og rífast um hjá Red Bull

Líklega verður barið í borð hjá Red Bull en afar skemmtilegu og djörfu einvígi þeirra Daniels Ricciardo og Max Verstappen  hring eftir hring lauk er um 10 hringir voru eftir með árekstri og brottfalli beggja bíla. Höfðu þeir haft sætaskipti í keppninni en í dekkjastoppinu seint í kappakstrinum komst Verstappen fram úr. Ricciardo gerði enn eina atlögu aðhonum en komst ekki er Verstappen zig-zag aði fyrir framan hann á bremsusvæði, sem þykir lélegur akstursmáti og hefur Verstappen verið refsað fyrir slíka brautarfrekju áður. Ricciardo átti enga undankomuleið og skall aftan á bíl Verstappen. Var þung brúnin á stjórnendum liðsins er þeir yfirgáfustjórnborðið í skyndi eftir áreksturinn. 

Romain Grosjean er sekur um klaufaskap dagsins með því að missa bíl sinn inn í öryggisvegg er hann reyndi að ná hita í dekkiná eftir öryggisbíl. Gripið var ekki neitt vegna kulda og missti bíllinn rásfestu að aftan, skrensaði og hálfsnerist og stakk trjónunni inn í vegginn.

Fjörug keppni, stöðugar framúrtökur og návígi skópu mikla spennu framan af en óhöppin,. akstursmistökin og árekstarnir tóku síðan við og settu sitt strik í reikninginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert