Sá stærsti ánægður

Franski ökumaðurinn Esteban Ocon hjá Force India er stærsti keppandinn í formúlu-1 og lýsir hann sig sérstaklega ánægðan með nýjar þyngdarreglur fyrir næsta ár.

Kveðið verður á um lágmarksþyngd ökumanna í nýju reglunum. „Ég er  ánægður með breytingarnar. Ég er stærstur ökumanna en þó ekki þyngstur og því get ég  byggt mig upp að styrk.“

Ocon segir að hann hafi alltaf verið af léttari gerðinni og hæðin hafi  háð honum meðan hann keppti í Renault-formúlunni og GP2-formúlunni. Hafi hann  af þeim sökum farið til keppni í þýska götubílakappakstrinum, GTM, vegna þess hversu bílarnir í fyrrnefndum formúlum voru þröngir og pössuðu honum illa.   

mbl.is