13 þúsundustu á milli

Aðeins 13 þúsundustu úr sekúndu skildu Mercedesfélagana  Lewis Hamitlon og Valtteri Bottas af á lokaæfingunni  fyrir tímatökuna í Barcelona.Voru báðir undir brautarmeti Bottas frá í gær.

Hið sama er að segja um næstu þrjá menn, Sebastian Vettel og Kimi Räiikkönen á Ferrari og  Daniel Ricciardo á Red Bull. Met Bottas var 1:18,148 mín., en til samanburðar ók Ricciardo á 1:17,981 og hinir hraðar. Tími Hamiltons var 1:17,281 mín.

Í sætum sex til tíu urðu - í þessari röð - Kevin Magnussen og Romain Grosjean á Haas, Carlos  Sainz á Renault, Fernando Alonso á McLaren og  Pierre Gazly á Toro Rosso en tími  hans mældist 1:18,886 mín.

Æfingin endaði snemma fyrir Brendon Hartley sem missti stjórn á Toro Rosso bíl sínum í hinni hröðu beygju númer níu. Snarsnerist bíllinn og skall all harkalega á öryggisveg og laskaðist mjög við höggið. Hartley steig óstuddur upp úr brakinu og virtist ómeiddur.

mbl.is