Þýskir þræta um dekkin

Ný dekk frá Pirelli hafa valdið deilum á vettvangi formúlu-1.
Ný dekk frá Pirelli hafa valdið deilum á vettvangi formúlu-1. AFP

Þrír Þjóðverjar hjá jafn mörgum liðum hafa síðustu daga deilt um keppnisdekkin sem liðunum stóð til boða í Spánarkappakstrinum í Barcelona.

Sebastian Vettel hjá Ferrari reið eiginlega á vaðið með því að segja að ný dekk með nýjum og þynnri sóla hafi valdið Ferrari óvænt erfiðleikum í Barcelona. Virkan þeirra hefði verið önnur en fram að því. 

Þá hélt einn af æðstu mönnum Red Bull liðsins, Helmut Marko, að Mercedesliðið hafi notið sérmeðferðar hjá dekkjaframleiðandanum, Pirelli.

Þessu reiddist Mercedesstjórinn Toto Wolff og gagnrýndi Marko harkalega fyrir útspilið.

„Menn þurfa ekki að vera sjéní til að skilja vel að dekk verða harðari þegar skafnir hafa verið fjórir millimetrar af sólanum. Þess vegna hafði öðrum liðum vegnað betur en okkur,“ sagði Wolff við útbreiddasta blað Þýskalands, Bild.

„Dekkjunum var breytt að kröfu Mercedes. Það á ekki að vera hægt en við sem drykkjavörufyrirtæki höfum ekki eins mikil áhrif og bílaframleiðandi,“ sagði Marko.

Wolff brást við þessu með því að segja, að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem landi sinn sæi drauga. „Vandamál komu upp í vetur við prófanir á þessum dekkjum vegna bólumyndunar, líka hjá Red Bull. Yfirborð þeirra leit út eins og eldfjallalandslag. Þess vegna betrumbætti Pirelli dekkin. Það er vont fyrir dekkjasmið ef barðarnir springa. Það er veikleikamerki þegar menn kvarta vegna slæmrar helgi. Til að finna svör við vandamálum hjá okkur leitum við inn á við,“ sagði  Wolff.

mbl.is