Toro Rosso kveðst geta unnið mót

Forsvarsmenn Toro Rosso liðsins eru einkar sælir með samstarfið við japanska bílaframleiðandann Honda sem leggur liðinu til vélar í keppnisbíla sína.

Varatæknistjórinn James Key, segir að ólíkt McLaren undanfarin þrjú ár, hafi Toro Rosso notið samstarfsins við Honda.

„Hveitibrauðsdagarnir eru að baki fyrir þónokkru síðan og sambandið er strax öllu dýpra. Samvinnan er til eftirbreytni,“ segir Key.

Hann segir það nýtt fyrir ítalska smáliðið að vera í stöð bílaliðs vegna Honda en gefandi. Njóti liðið óskorað krafta Honda við að bæta vélina og bílinn. „Við höfum aldrei fengið tækifæri til að vinna svo náið með vélarframleiðanda. Lífið á kappakstursbrautinni er auðveldar þar sem ég finn hvernig Honda bregst við öllum okkar óskum,“ segir Key.

Möguleikar eru á því að móðurlið Toro Rosso, Red Bull, gangi einnig til liðs við Honda. Key er á því að Honda þurfi ekki á því að halda til þess að vinna sigur í keppni. Toro Rosso sé í stakk búið til að fleyta Honda upp á efsta þrep verðlaunapalls. Þurfi einungis smá heppni til að það geti átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert