Gruna Ferrari um græsku

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hefur skyldað Ferrari til að aka með sérstakan tölvubúnað í vélbúnaði keppnisbíls liðsins í Mónakó. Tilefnið munu vera grunsemdir um að frágangur aflrásarinnar gæti stangast reglur.

Viðbótar rafgeymir í bílunum kveikti í efasemdarmönnum meðal keppinauta Ferrari. Telja þeir að útfærsla í vélbúnaði bílsins geri liðinu kleift að fara í kringum reglur um hversu mikið rafafl megi geyma á geymunum - og síðan brúka þann veg að Ferrari hafi úr meira vélarafli að spila en önnur lið.

Keppnisstjóri FIA,  Charlie Whiting, hefur skoðað vélbúnað Ferrari og engar vísbendingar fundið um hina meintu aflsnotkun. Búnaðinum sem Ferrari var skylt að vera með í bílnum um helgina er ætlað að taka af öll tvímæli hvort Ferrari fari að reglum eða smeygi sér framhjá þeim.

Um er að ræða sérstaka viðbótarskynjara sem eiga að leiða sannleikann í þrætumáli þessu í ljós.

mbl.is