Kóngur í Mónakó

Ástralinn Daniel Ricciardo fagnar sigrinum í Mónakó rétt í þessu ...
Ástralinn Daniel Ricciardo fagnar sigrinum í Mónakó rétt í þessu og áhorfendur hylla hann. AFP

Daniel Ricciardo á Red Bull var í þessu að vinna einstæðan sigur í Mónakókappakstrinum en þótt hann glímdi við ótilgreinda bilun í aflrásinni seinni helming akstursins tókst honum að halda öllum keppinautunum nógu langt að baki sér til að þeir legðu ekki til atlögu við hann.

Naut Ricciardo þess að nær útilokað er að taka fram úr í furstadæminu ef bílarnir eru á annað borð ámóta.

Sebastian Vettel á Ferrari varð annar, Lewis Hamilton á Mercedes þriðji, Kimi Räikkönen á Ferrari fjórði, landi hans Valtteri Bottas fimmti, sjötti varð Frakkinn Esteban Ocon á Force India og sjöundi landi hans Pierre Gasly á Toro  Rosso.

Nico Hülkenberg á  Renault varð áttundi, Max Verstappen á Red Bull níundi og síðasta stigið fellur svo Carlos Sainz á Renault í skaut en hann varð tíundi í mark.

mbl.is