Hafa ekki sýnt á öll spilin

Valtteri Bottas í Montreal í gær.
Valtteri Bottas í Montreal í gær. AFP

Þriðja mótið í röð hafa bílar Red Bull ver iðhraðskreiðastir á æfingum föstudagsins, en Daniel Ricciardo telur þó að Mercedesliðið verði afar erfitt viðureignar í Kanadakappakstrinum í Montreal á morgun.

Ekki er erfitt að sjá hvað Ricciardo er að fara. Mercedesmætti til leiks með færri sett af ofurmjúku dekkjunum en keppinautarnir, trúði ekki á þau. Hafa þau reynst betri en búist var við er aksturstilraunir með þessa mýkstu dekkjagerð fór fram.

Spöruðu Mercedesmenn sér dekkin í gær til að standa betur að vígi í tímatökunum í dag og kappakstrinum á morgun.

Og þrátt fyrir að Lewis Hamilton hafi verið góðri sekúndu lengur með hringinn en Max Verstappen sem ók hraðst í gær, þykir víst að þeir Hamilton og Valtteri Bottas muni bæta sér það upp og jafnvel gott betur þegar ofurmjúku dekkin fara undir bíla þeirra í dag.

mbl.is