Hamilton óviðráðanlegur í 65. sigri

„Gleðilegan sunnudag,“ sagði Lewis Hamilton í talstöðinni  eftir að hafa ekið fyrstur yfir endamark franska kappakstursins í Le Castellet. Var þetta 65. sigur hans á ferlinum í samtals 20 mismunandi brautum.

Þetta er í fyrsta sinn í áratug sem formúlumót er haldið í Frakklandi

Hamilton hóf  keppni af ráspól og var öðrum ökumönnum óviðráðanlegur. Var honum aldrei ógnað. Naut hann þess þó ef til vill að helstu keppinautarnir, liðsfélaginn Valtteri Bottas og Sebastian Vettel á Ferrari lentu í samstuði á fyrsta hring. Vegna skemmda urðu þeir að fara inn að bílskúr til að skipta um framvæng (Vettel) og dekk. Féllu þeir niður í síðustu sæti og urðu að vinna sig fram á við drjúgan tíma keppninnar.

Á endanum stóðu Max Verstappen á Red Bull og Kimi Räikkönen á Ferrari við hlið Hamiltons á verðlaunapallinum. Fjórði varð Daniel Ricciardo á Red Bull, fimmti Vettel, sjötti Kevin Magnussen á Haas, sjöundi Bottas áttundi Carlos Sainz á Renault og tvö síðustu stigasætin féllu í skaut Nico Hülkenberg á Renault og Charles Leclerc á Sauber.

Sainz var í sjötta sæti nær alla keppnina en varð fyrir vélarbilun er fjórir hringir voru eftir og missti tvo keppendur fram úr sér. Hálfri mínútu síðar  hefðu þeir ekki getað tekið fram úr því sýndaröryggisbíll var kallaður út í brautina eftir að framdekk sprakk með látum á Williamsbíl Lance Stroll.

Mikið var um samstuð á árekstra á fyrsta hring kappakstursins. Féllu tveir heimamenn úr leik, Esteban Ocon á Force India og Pierre Gasly á Toro Rosso. Nokkrið aðrir urðu fyrir tjóni og þurftu að fara inn að bílskúr til viðgerða.

Vettel var úrskurðaður sekur um samstuð þeirra Bottas svo undarlegt sem það hljómar því hann átti enga undankomuleið eftir að Bottas þveraði fyrir Vettel og lokaði á hann. Hlaut hann 5 sekúndna stoppvíti og sömu refsingu fékk Frakkinn Romain Grosjean á Haas fyrir  akstursbrot.

Hamilton aftur í forystu

Með sigrinum, þeim þriðja í röð, endurheimti Hamilton forystu í keppninni um titil ökumanna en fyrir mótið var Vettel með eins stigs forystu. Frá Le Castellet fer Hamilton hins vegar með 14 stiga forystu, 145:131. Í þriðja sæti er Ricciardo með 96 stig, fjórði Bottas með 92 og Räikkönen 83.

mbl.is