Hamilton söng inn á plötu Aguilera

Lewis Hamilton neitar að staðfesta hvort hann hafi sungið inn á sína fyrstu plötu með því að koma fram á nýjustu plötu bandarísku söngkonunnar  Christina Aguilera.

Liberation heitir platan  og hermt er að Hamilton hafi ljáð einu laganna á henni, „Pipe“, röddu sína. Er hann sagður koma þar fram undir dulnefninu XNDA.

Neitaði Hamilton að svara spurningum um þetta efni í Spielberg í dag, en þar fer austurríski kappaksturinn fram á sunndag.

„Hér er ég að einbeita mér að því að vinna heimsmeistaratitil ökumanna. Á þetta einblíni ég, að fókusera alfarið á formúlu-1,“ sagði Hamilton er hann vék sér undan því að svara spurningum um upphaf tónlistarferils hans.

Í fyrra sagði Hamilton fráþví að hann nyti sín í stúdíóinu við að búa til lög. Sagðist hann dvelja þar langvölum.

mbl.is