Räikkönen á leið aftur til McLaren

Kimi Räikkönen ýtti í dag undir sögusagnir um að hann væri á leið til McLaren, sem hann keppti fyrir á árunum 2002 til 2006.

Á blaðamannafundi í Spielberg þar sem austurríski kappaksturinn fer fram um helgina, sagðist Räikkönen myndu keppa fyrir annað lið 2019 ef hann yrði ekki í störfum fyrir Ferrari.

Heimildir herma að McLaren hafi borið í víurnar við Räikkönen um að snúa aftur til liðsins. „Ég veit það eiginlega ekki,“ sagði finnski ökumaðurinn spurður hvort það væri ennþá ásetningur hans að ljúka ferlinum í Ferraribíl.  

„Við skulum bíða og sjá hvað setur. Það er alltaf heilmikið sagt og talað, ég get eiginlega ekkert um þetta sagt. En allt verður þetta ákveðið í tímans rás, og það á við mig líka.“

Räikkönen segist engin tímamörk hafa sett um hvenær hann vilji fá plön næsta árs á hreint. Hann segist ekkert kippa sér upp við umræðuna eða gang mála, því svona hafi þetta alltaf verið.

Hermt er einnig, að Ferrari íhugi það nú gaumgævilega að láta tvítuga nýliðann Charles Leclerc keppa á næsta ári í stað Räikkönen. Hann hefur vakið mikla athygli með frammistöðu sinni á Sauber-bíl með því að vinna stig í síðustu fjórum mótum í röð.

mbl.is