Stórsekt fyrir að svína fyrir

Stoffel Vandoorne á fyrri æfingunni í Spielberg í morgun.
Stoffel Vandoorne á fyrri æfingunni í Spielberg í morgun. AFP

McLarenliðið hefur verið sektað um 10.000 evrur - ígildi rúmlega 1,2 milljóna króna - fyrir að hleypa öðrum bíl liðsins af stað þvert í veg fyrir Sebastian Vettel á Ferrari á fyrri æfingu dagsins í Spielberg í Austurríki.

Niðurstaða eftirlitsdómara mótsins var að þetta hafi varðað við öryggi keppenda og starfsfólks, en Vettel varð að snarhemla til að forðast samstuð. 

Í úrskurði þeirra segir að McLarenliðið hafi fallist á að því hefði orðið á þessi mistök. 

„Ég klessti næstum á McLaren,“ heyrðist Vettel segja við lið sitt í talstöðinni.

McLaren var sektað um 5.000 evrur í kínverska kappakstrinum fyrir að senda Vandoorne út í brautina með illa fests afturhjól.

Haas-liðið var einnig sektað um 5.000 evrur í dag fyrir mistök í bílskúrareininni. Sendi það Kevin Magnussen af stað skömmu fyrir lok æfingarinnar. Nýju dekkjunum sem þá höfðu verið sett undir bílinn voru ekki nógu föst. Lét liðið hann vita af því strax og skipaði honum að nema staðar í bílskúrareininni. Dugðu þær varúðarráðstafanir ekki til að sleppa liðinu við sekt.

Carlos Sainz hlaut einnig sekt á æfingunni í morgun. Ók hann of hratt á bílskúrasvæðinu sem kostaði hann 500 evrur. Hið sama gerði hann í franska kappakstrinum um síðustu helgi.

mbl.is