Vettel hafði betur á lokaæfingunni

Eftir drottnun Mercedes á æfingum gærdagsins í Spielberg í Austurríki sneri Sebastian Vettel á Ferrari dæminu við á lokaæfingunni fyrir tímatökuna. Í næstu tveimur sætum urðu Lewis Hamilton og Valtteri Bottas á Mercedes. 

Ökumenn Mercedes og Ferrari skiptust margsinnis á að setjast í efsta sæti lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar. Auk framangreindra tók Kimi Räikkönen þátt í þeim slag. Aðeins munaði 29 þúsundustu úr sekúndu á Vettel og Hamilton þegar upp var staðið og Bottas var rúmlega 0,1 sekúndu frá tíma Vettels.

Í sætum fjögur til tíu urðu - í þessari röð - Räikkönen á Ferrari, Max Verstappen og Daniel  Ricciardo á Red Bull, Romaine Grosjean og Kevin Magnussen á Haas, Carlos Sainz á Renault og loks Charles Leclerc á Sauber.

Er um tíu mínútur voru eftir af æfingunni urðu þeir Verstappen og Leclerc fyrir vélarbilunum og urðu að leggja bílum sínum við brautarkant.

Tímataka austurríska kappakstursins hefst klukkan 13 að íslenskum tíma, klukkan 15 að austurrískum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert