Verstappen vann - Mercedes úr leik

Max Verstappen á Red Bull var í þessu að vinna austurríska kappaksturinn í Spielberg í Steyrufjöllum. Báðir bílar Mercedes féllu úr leik vegna bilana og hefur Sebastian Vettel á Ferrari endurheimt forystuna í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Mercedes gerði þau taktísku mistök að senda ekki ökumenn sína inn að bílskúr eftir nýjum dekkjum þegar sýndaröryggisbíll var í brautinni eftir um 10 hringi. Það gerðu aftur á móti ökumenn bæði Red Bull og Ferrari auk annarra og átti þessi breytni eftir að koma Mercedesliðinu rækilega í koll í titilslagnum.

Skömmu eftir þetta féll Valtteri Bottas reyndar úr leik vegna bilunar í gírkassa Mercedesbílsins.

Þegar Hamilton áttaði sig á að keppinautarnir voru að sækja á hann á nýjum dekkjum gereðist hann all gramur í garð stjóra sinna. Var hann í raun fallinn úr efsta sæti þegar keppnin fór aftur af stað og eftir það virtist aðalmál Mercedes að halda honum á undan Vettel vegna einvígis þeirra í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Kom Hamilton út úr stoppinu í fjórða sæti og rétt á undan Vettel. Hélt hann áfram að sækja stíft og nálgaðist fremstu menn en allt var það á kostnað dekkjanna sem misstu skilvirkni. Þegar innan við tugur hringja var eftir ók hann út fyrir braut og lagði silfurör Mercedes, að því er virtist vegna bilunar í gírkassa. 

Verstappen erfði forystuna þegar Hamilton fór inn til dekkjaskipa og lengi vel var liðsfélagi hans Daniel Ricciardo í öðru sæti. Lánið lék ekki við honum því fyrst gatslitnuðu dekkin svo hann neyddist til aukastopps og kom út úr því í fimmta sæti. Skömmu seinna lagði hann bílnum við brautarkant vegna gírkassabilunar.

Ferrari aftur efst í báðum titilkeppnum

Þrátt fyrir að hafa komið í mark í þriðja sæti endurheimti Vettel forystuna af Hamilton í titilkeppni ökumanna, en staðan er 146:145 Ferrariþórnum í vil. Þriðji er Räikkönen með 101 stig, fjórði Ricciardo með 96, Verstappen með 93 og Bottas með 92.

Ferrari endurheimti einnig forystuna í titilkeppni liðanna, er með 247 stig gegn 246 stigum Mercedes eftir austurríska kappaksturinn. Red Bull er með 189 og Renault 62. Þá bætti Haas stöðu sína í dag og er með 49 stig og fór fram úr McLaren sem er með 44 stig. Force India er með 42, Toro Rosso 19, Sauber 16 og Williams 4.  

Óhætt er að segja að austurríski kappaksturinn sé sá besti, sviptingasamasti og skemmtilegasti það sem af er vertíðar. Eftir viku verður næsta mót, í Silverstone í Englandi. Þangað heim hefði Hamilton fremur kosið að koma með sigur í Steyrufjöllum undir belti og forystu í keppni ökumanna en hvorugu því átti hann að fagna við mótslok í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert