Óvenjulegt hjá Mercedes

Finninn Valtteri Bottas hjá Mercedes vann sinn fimmta ráspól á ferlinum í Austurríki um nýliðna helgi. Stóð hann þar með vel að vígi til að bæta sigri í safnið.

Með pólunum fimm hafði Bottast unnið sama afrek og Giuseppe Farina, Chris Amon, Clay Regazzoni, Patrick Tambay og Keke Rosberg. Fremstu rásröðinni deildi hann svo með  liðsfélaga sínum, Lewis Hamilton, sem var 19 þúsundustu úr sekúndu lengur með tímatökuhringinn.

Var það minnsti munur á ökumönnum Mercedes frá því Nico Rosberg lagði Hamilton að velli í keppninni um ráspól japanska kappakstursins í Suzuka 2016.

Bottas misheppnaðist hins vegar í ræsingunni en það hafði ekki gerst frá í brasilíska kappakstrinum í fyrra að ráspólshafi hafði tapað forystunni er ökumennirnir kláruðu fyrsta hring kappakstursins. Þar átti Bottas einnig í hlut.

Þetta var þó ekkert í samanburði við það sem koma átti, en báðir bílar Mercedes féllu úr leik og komust ekki alla leið í mark.  Síðast gerðist það hjá Mercedes í spænska kappakstrinum 2016 er Rosberg og Hamilton keyrðu hvor hinn útaf brautinni.

Fara verður aftur til Mónakókappakstursins 1955 til að finna brottfall beggja Mercedesbílanna vegna tæknilegra bilana. Í það skiptið féll Juan Manuel Fangio úr leik vegna bilunar í gírkassa og vélarbilun stöðvaði för Andre Simon. Þriðji bíll Mercedes sem Stirling Moss ók var enn í keppni við mótslok, að vísu 19 hringjum á fetir fyrsta bíl.

mbl.is