Vettel ruddi blokk Mercedes

Sebastian Vettel á Ferrari var í þessu að vinna breska kappaksturinn í Silverstone eftir æsispennandi lokahringi þar sem Mercedesliðið lét Valtteri Bottas halda sem mest aftur af honum til að Lewis Hamilton gæti reynt að leggja Vettel að velli í blálokin.

Vettel reyndi nokkrum sinnum að komast fram úr Bottas sem hægði ferðina í beygjum til að Hamilton væri í snertingu við Ferrariþórinn. Hvað eftir annað voru þeir samsíða en á endanum sýndi Vettel mikla dirfsku, bremsaði á á allra síðustu sekúndubrotum og skaust inn fyrir Bottas og hafði af honum forystuna þegar fimm hringir af 52 voru eftir.

Vettel vann sig úr öðru sæti á rásmarki og hreppti forystuna á fyrstu metrunum eftir að kappaksturinn var ræstur af stað. Hamilton og Kimi Räikkönen nudduðust saman í fyrstu beygjunum með þeim afleiðingum að bíll Hamiltons snarsnerist og hafnaði út í malargryfju. Komst hann af stað þaðan en hafði þá fallið niður í 17. sæti. Vann hann sig jafnt og þétt fram á við og var í sjötta sæti er öryggisbíll var kallaður út í brautina er Sauberbíll Marcus Ericsson flaug út úr beygju og skall af miklu afli á öryggisvegg.

Opnaði þetta keppnina alveg upp á nýtt og ekki voru liðnir nema einir tveir hringir er öryggisbíllinn var aftur sendur út; eftir að Romain Grosjean á Haas og Carlos Sainz á Renault höfnuðu á öryggisvegg eftir samstuð í brautinni. Voru þá einir 15 hringir eftir og ákvað Mercedes að halda báðum ökumönnum úti en Vettel skaust hins vegar úr forystu inn að bílskúr og fékk ný dekk undir sinn bíl. Kom hann út í brautina aftur á eftir Bottas.

Með þessu fékk Bottas forystuna í sinn hlut og var þar með í ákjósanlegri stöðu til að hjálpa liðsfélaga sínum Hamilton í titilslagnum. En sem fyrr ók Vettel afar grimmt og sótti sigurinn sem lengstum hafði blasað við honum. Var þetta 51. mótssigur hans í formúlu-1.

mbl.is