Byrjendaklúður kostaði Vettel dýrt

Margfaldur heimsmeistari í formúlu-1, Sebastian Vettel hjá Ferrari, gerði sig sekan um byrjendamistök í þýska kappakstrinum, sem var í þessu að ljúka í Hockenheim.

Hafði hann örugga forystu þegar um 15 hringir voru eftir, var níu sekúndur á undan næsta manni, en gleymdi að hægja ferðina inn í  beygju við eina af aðalstúkum brautarinnar með þeim afleiðingum að bíllinn hafnaði á öryggisvegg í malar gryfju. Raki var á brautinni á þessum slóðum eftir lítilsháttar úrkomu og skjöplaðist Vettel þar á of mikilli ferð sinni.

Á því augnabliki var Lewis Hamilton á Mercedes í aðeins fimmta sæti, eftir að hafa byrjað kappaksturinn í því 14, en hann féll snemma úr leik í tímatökunni í gær vegna bilunar í gírkassa og vökvakerfi.

Æxlaðist framhaldið þann veg, að Hamilton hrósaði sigri - með hjálp liðsfyrirmæla frá stjórum  Mercedes sem tóku fyrir tilraunir Valtteri Bottas til að vinna sig upp í fyrsta sæti er öryggisbíll hvarf úr brautinni. Í staðinn fékk hann það hlutverk að tefja för landa síns Kimi Räikkönen hjá Ferrari sem var enn viss ógn við Mercedesmenn.

Þrátt fyrir þetta er sigur Hamiltons í Hockenheimring með ólíkindum óvæntur, m.a. vegna rigningar sem lét þó aðeins lítilsháttar á sér kræla er um þriðjungur kepni var eftir.   

Tapaði af vænni stigaforystu

Í stað þess að fara af hólmi með drjúga forystu í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna fór Vettel af hinum þýska heimavelli með lafandi skott. Með árangri sínum tók Hamilton forystuna að nýju í því einvígi þar sem staðan er nú 188:171 stig. Räikkönen hefur 131 stig, Bottas 122 og Daniel Ricciardo á Red  Bull 106.

Mercedesmenn fagna tvöfalt á heimavelli því liðið er að nýju með forystu í keppni liðanna, með 310 stig gegn 302 Ferrari. Red Bull er með 211, Renautl með 80 og Force India með 59 stig.

Í sætum fjögur til 10 í Hockenheim - í þessari röð - urðu Max Verstappen á Red Bull, Nico Hülkenberg á Renault, Romain Grosjean á Haas, Sergio Perez og Esteban Ocon á Force India, Marcus Ericsson á Sauber og Carlos Sainz á Renault. Afrekaði Grosjean það að taka fram úr báðum bílum Force India á síðasta hring kappakstursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert